Um Legstaðaleit

Legstaðaleit byrjaði 2014 þegar ég fékk fyrstu myndirnar úr Keflavíkurkirkjugörðunum sendar frá Magnúsi Ó. Ingvarssyni. Mig hafði lengi langað til að byrja á heimasíðu þar sem safnað væri saman myndum af íslenskum legsteinum (þ.e.a.s. legsteinum á Íslandi og legsteinum sem standa á leiðum Íslendinga um allan heim), en þar sem ég er búsett erlendis sjálf, þá gat ég ekki alveg séð fyrir mér hvernig ég ætti að ná í myndirnar. Á endanum skrifaði ég í Facebook hóp sem tileinkaður er íslenskri ættfræði og auglýsti eftir sjálfboðaliðum til að taka myndir fyrir mig. Undirtektirnar voru góðar og síðan þá hef ég haft nóg að gera við að skrásetja legsteinana og fólkið tengt þeim. Þegar þetta er skrifað (9. júlí 2019) eru rúmlega 4.200 legsteinamyndir, tæplega 8.500 einstaklingar og 131 kirkjugarður, skráðir í gagnagrunna Legstaðaleitar.

Þjóðskjalasafnið var svo vingjarnlegt að leyfa mér að birta prestsþjónustubækurnar sem þeir hýsa líka á sinni síðu. Það hefur gert mér kleyft að tengja fæðingar og andlát fólks við viðeigandi síður í viðeigandi prestsþjónustubók. Ég hef valið að sýna prestsþjónustubækurnar á aðeins öðruvísi hátt heldur en Þjóðskjalasafnið þannig að kannski finnst sumum auðveldara að finna réttu bókina.

Hvernig getur þú hjálpað:

  • Ég tek alltaf á móti myndum af legsteinum 🙂 Þó svo að kirkjugarður hafi verið ljósmyndaður áður, þá getur oft vantað myndir þaðan. Ef þú ert með mynd sem ég má birta hér á síðunni, sendu mér þá endilega póst.
  • Ég tek alltaf við æviágripum, ljósmyndum og öðru áhugaverðu sem tengist fólki sem er skráð hér á síðunni. Ef þú ert með eitthvað þvílíkt sem ég má birta hér á síðunni, sendu mér þá endilega póst.
  • Það kostar ekkert að skoða sig um í gagnagrunninum, leita að legsteinum eða fólki. En það fylgir því alltaf einhver kostnaður að reka svona síðu. Ef þú vilt styrkja síðuna þá t.d. notað Paypal til að senda aur.

Ef þú vilt nota myndir frá Legstaðaleit á öðrum heimasíðum eða öðrum miðlum, vinsamlegast hafðu þá samband fyrst.

Að lokum langar mig að segja að ég vona að Legstaðaleit komi einhverjum að gagni. Ef þið eruð með góðar hugmyndir eða leiðréttingar, eða langar bara til að segja að þið hafið fundið mynd sem ykkur vantaði, þá er alltaf gaman að fá póst. 🙂

Bestu kveðjur
Rakel Bára Þorvaldsdóttir